Önnur nöfn
Íslenska: Osteópatía
Enska: osteopathy, osteopathic medicine
Stutt yfirlit
Osteópatar greina og meðhöndla ýmis líkamleg vandamál í gegnum vöðva- og liðkerfi líkamans með því að vega og meta hreyfanleika og virkni liðamóta og vöðva. Osteópatar telja að heilsa liðamóta og vöðva sé mikilvægur þáttur í alhliða heilsu einstaklingsins.
Upphafsmaður osteópatíu er Bandaríkjamaðurinn Andrew Taylor Still (1828-1917). A.T. Still stundaði lækningar á 19. öldinni en eftir að hafa misst þrjú börn sín úr heilahimnubólgu skömmu eftir þrælastríðið varð hann vantrúa á hið hefðbundna læknakerfi þess tíma og ákvað að leita annarra leiða til að hjálpa fólki. Árið 1874 varð svo osteópatía opinberlega til.
Eins og flestir læknar á landnámssvæðunum þá stundaði A.T. Still mörg önnur störf samhliða lækningum, landbúnað, vélvirkjun og hann barðist í þrælastríðinu. Hann var mikill áhugamaður um vélar og sá stoðkerfi líkamans (vöðvar, beinagrind og það sem því tilheyrir) útfrá vélrænu sjónarhorni, eins og vél væri virkni stoðkerfisins háð uppbyggingu þess, og öfugt (function governs structure). Á leikmannsmáli er hægt að segja að ef einhver hlutur í vél eða í líkama liggur ekki rétt þá virkar hann ekki rétt og það hefur einnig áhrif á hlutina sem liggja honum næst. En þessi hugmyndafræði er í dag ein af grundvallarhugtökum virknis líffærafræðinnar (functional anatomy).
Eins og með flestar nýjar hugmyndir sem eru á skjön við ríkjandi hugsunarhátt var þessu ekki vel tekið og A.T. Still var útskúfaður og neyddist til að ferðast um til að finna sér vinnu við lækningar. Þetta þótti honum leitt þar sem ætlun hans var að betrumbæta þáverandi læknisfræði með aukinni rökhyggju og vísindalegum grunn, en ekki setja sig á móti henni. Með tíð og tíma jókst orðspor og viðurkenning á þessum óhefðbundna lækni og fólk var farið að þrýsta á A.T. Still að kenna sér fræðin. Árið 1892 var fyrsti osteópataskólinn stofnaður í Kirksville, Missouri.
Stéttin jókst jafnt og þétt og viðurkenning hennar með og að lokum voru osteópatar teknir inn í læknasamtök Bandaríkjanna og aðlagaðist stéttin að hefðbundnum læknisfræðum. Í dag eru osteópatar fullgildir læknar í Bandaríkjunum og er nám þeirra að öllu leiti það sama og hefðbundinna lækna, auk sem þeir taka osteópatíska hugmynda- og meðferðarfræði.
Í Evrópu hefur vegur osteópatíu hinsvegar legið í aðra átt. Fyrstu osteópatarnir komu til Englands rétt um aldamótin 1900 áður en bandarískir starfsbræður þeirra færðust í átt að hefðbundnum lækningum og þannig hafa evrópskir osteópatar ekki orðið fyrir áhrifum frá hefðbundnum lækningum og haldist sem óhefðbundnir líkamsmeðhöndlarar.
Hvernig virkar meðferðin?
Hugmyndafræði osteópatíu fylgir eftirfarandi 3 lögmálum:
Hvernig fer meðferðin fram og við hverju má búast?
Í fyrsta tíma er farið ítarlega í sögu og þróun viðkomandi vandamáls. Því næst er farið yfir sjúkrasögu, veikindi og meiðsl og athugað hvort tengsl séu þar á milli eða hvort tilvísun til læknis sé ráðlögð vegna frekari rannsókna. Síðan eru framkvæmd bæklunar- og hreyfifræðileg próf ef þörf er á. Ef osteópatinn telur að vandamálið sé viðeigandi til meðhöndlunar þá er meðhöndlunin sniðin persónulega að einstaklingnum á grundvelli greiningarinnar.
Osteópati meðhöndlar svo til einungis með því að beita höndum á liðamót og mjúkvefi viðskiptavinarins með það í huga að endurheimta fyrra heilbrigði, blóðflæði eða óhindruð taugaboð. Til þess eru notaðar margs konar aðferðir svo sem nudd, liðteygjur, vefja- og vöðvameðferð og hnykkingar, auk fjölda annarra.
Einnig getur osteópati gefið ráð um æfingar og breytingar á starfsháttum ef við á til að flýta fyrir árangri.
Segja má að osteópati vinni hefðbundið eins og bæklunarlæknir við greiningu vandamálsins og meðhöndli vandamálið óhefðbundið með þeim aðferðum sem hann telur við hæfi.
Eins og með allar meðferðir er árangur mismunandi og engin trygging er fyrir árangri.
Við hverju hentar meðferðin?
Osteópatía getur hjálpað við flest þau vandamál sem stafa frá liðamóta- og vöðvakerfi líkamans. Nokkur dæmi um það eru:
• Bakverkir, með eða án leiðandi verkja
• Brjósklos
• Hálsverkir
• Verkur eða stífleiki í liðamótum (t.d. öxlum, mjöðmum, olnbogum og hnjám)
• Gigtarverkir
• Íþróttameiðsl
• Leiðandi verkir út í hendur eða fætur
• Höfuðverkir, svimi og suð í eyrum, og fleira ef upptök eru frá stoðkerfi
• Bráðir sem þrágjarnir verkir
Þar sem osteópatía notast við ýmsar nuddaðferðir og hnykki (auk annarra aðferða) þá hentar osteópatía í sömu tilfellum og nudd og hnykkir eru viðeigandi fyrir, nema ef leitað er eftir einungis afslappandi slökunarnuddi þá hentar osteópatía líklegast ekki þar sem aðferðarfræði hennar miðast við að leysa stoðkerfavandamál.
Hvernig á að velja meðhöndlara?
Osteópatar eru löggild heilbrigðisstétt og má samkvæmt lögum engin kalla sig osteópata nema hafa lokið tilskyldu osteópatanámi og hafa fengið löggildingu frá Landlæknisembættinu.
Osteópatar ljúka 4-5 ára háskólanámi og enda með B.Sc eða B.Ost gráðu. Áður fyrr fengu osteópatar D.O. gráðu sem stendur fyrir Diploma of osteopathy. Þeir osteópatar sem hafa lokið námi frá Bandaríkjunum útskrifast með gráðuna Doctor of Osteopathy (D.O.).
Fólk skal varast meðhöndlara sem lofa árangri eða gefa upp ákveðin árangur t.d. eftir svo og svo margar meðhöndlanir þá mun þetta X ástand vera svona breytt.
Á Íslandi er starfandi Osteópatafélag Íslands.
Möguleg vandamál eða aukaverkanir
Osteópatía hefur sömu mögulegu vandamál eða aukaverkanir og nudd og hnykkingar (sjá nuddmeðferð og kírópraktík). Varast skal að hnykkja fólk sem þjáist af beinasjúkdómum sem veikja bein, eins og alvarleg beinþynning og krabbamein í beinum. Ekki skal nudda yfir bláæðabólgur eða blóðtappamyndanir (eða grun um blóðtappa). Forðast skal opin sár, brunasár og sýkingar í húð.
Heimildir
www.heilsusidan.is
www.wholehealthmd.com
www.cancer.org
Glósur frá Haraldi Magnússyni osteópata